top of page

Sumartónleikar í Skálholti

1.-10. júlí 2022

Upptaktur: LHÍ

30. júní kl 20:00

 

Á upphafstónleikum hátíðarinnar frumflytjum við níu verk í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Nemendur úr tónsmíðadeild kynna verk sín fyrir rödd og orgel sem unnin voru í vinnustofum í Skálholti. Flytjendur eru Hanna Dóra Sturludóttir, Bergþóra Linda Ægisdóttir og Jón Bjarnason.

LHI2.jpg

Taffelpikene: ADA sú sem skapar

1. júlí kl 20:00

Norska tréblásturstríóið Taffelpikene flytur nýja tónlist eftir eftirtektarverð norsk tónskáld. Tónskáldin koma frá mismunandi tónlistarstefnum en eiga það sameiginlegt að vera konur. Úr þessu hefur skapast fjölbreytt og spennandi blanda allt frá verkum eftir þjóðlagafiðluleikarann Guro Kvifte Nesheim til jazzsaxófónleikarans Shannon Mowday frá Suður-Afríku. Önnur tónskáld í verkefninu eru Hanna Paulsberg og Karoline Wallace. Á efnisskránni verður einnig flutt verk eftir staðartónskáld Sumartónleika, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, sem samið var fyrir klarinett árið 1984.

Taffelpikene_mynd.jpg

Fjölskyldutónleikar: Nú angar og suðar í Skálholti

2. júlí kl 13:00

 

Nú angar og suðar í Skálholti er upplifunarleikhús fyrir fjölskyldur þar sem norska tréblásturstríóið Taffelpikene og leikkonan Ingunn Lára Kristjánsdóttir segja frá hinni litríku Sólsekvíu sem heimsækir Skálholt í leit að ís með ömmu sinni um hásumar. Skyndilega fyllist Skálholtskirkja af lífi er ýmsir litlir gestir ryðjast forvitnir inn í kirkju til að tala við og skoða Sólsekvíu. Sýningin dregur innblástur sinn úr náttúru og umhverfi Skálholts og er hluti af norræna verkefninu Nytt i nord! þar sem norræn tónskáld semja fyrir börn. Tónlist er eftir Ásbjörgu Jónsdóttur, Birgit Djupedal og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Texti er eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur.

2022_Nu_angar_og_sudar_3.jpg

Sigurður Halldórsson: Hljómandi

2. júlí kl 15:00

 

Tónlistin á þessum tónleikum samanstendur af verkum frá síðari hluta 20. aldar sem kallast á við barokkverk með sömu formum eða skyldum tónsmíðaaðferðum. Hér eru þau leikin á barokkselló, þ.e. með girnisstrengjum, lítilli tvíund fyrir neðan hefðbundna nútímatónhæð. Verkin eiga það sameiginlegt að tónmiðja þeirra er nótan D. Sú tónmiðja er sérstaklega hljómmikil á sellóinu af því að efri lausu strengirnir eru A og D sem eru sérlega sterkir sé spilað á þá saman. Lausi D strengurin getur líka virkað sem drón, sé hann látinn hljóma um leið og leikið er á strenginn fyrir ofan eða neðan.

Siggi_2.jpg

Messa: Sólrún F. Wechner

3. júlí kl 11:00

 

Sólrún Franzdóttir Wechner semballeikari spilar til heiðurs Helgu Ingólfsdóttur sem hefði orðið áttræð á árinu. Í messunni flytur Sólrún verkið Taramgambadi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur sem samið var fyrir Helgu Ingólfsdóttur, stofnanda Sumartónleika í Skálholti.

Sólrún.jpeg

Sólrún F. Wechner, Anna Kaiser og Johannes Berger: The Art of Playing

3. júlí kl 14:00

„The intention of music is not only to please the ear, but to express sentiments, strike the imagination, affect the mind, and command the passion“ 

Með þessum orðum hefst einstök bók Geminianis, Listin að spila á fiðlu, ein af hans þekktustu bókum sem gefin var út á 18. öld og þykir nær ljóðræn. Geminiani, heimsborgari, virtúós, tónskáld og kennari bætti við æfingarlögum sem eru gaumgæfilega skreytt fyrir hljóðfæraleikarann til að þjálfa ímyndunaraflið, beita tjáningu og tónlistarkunnáttu. Tónlist af svo miklum gæðum ætti að fá að heyrast á tónleikum en ekki einungis í æfingarrýmum.

Solrun_trio_2.jpg

Vinakvartettinn: Endurreisn og samtíminn

3. júlí kl 16:00

Vinakvartettinn er nýlega stofnaður klassískur söngkvartett af fjórum vinum, Eggert R. Kjartansson tenór, Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og Unnsteinn Árnason bassi, sem stunduðu saman nám í Vínarborg. Vegna fjarveru Unnsteins mun Pétur Oddbergur Heimisson syngja með kvartettnum að þessu tilefni. Á tónleikunum flytur kvartettinn íslensk samtímaverk eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Helga Rafn Ingvarsson ásamt sálmum og þjóðvísum í útsetningum Hildigunnar Rúnarsdóttur og Báru Grímsdóttur. Einnig munu þau flytja Madrígala frá endurreisnatímanum. Tónlistin verður öll flutt án hljóðfæraleiks og fá því áheyrendur að hlýða á þessar ólíku raddir fléttast saman í hlýjan samhljóm í Skálholtskirkju.

Kvartettinn-3.jpg

Fjölskyldustund: Hljóðveiðar með BRUM

6. júlí kl 17:00

 

Sviðslistahópurinn Trigger Warning býður upp á vinnustofuna BRUM þar sem fjölskyldum gefst kostur á að skapa tónlist innblásna af náttúrunni. Farið verður út í náttúruna á hljóðveiðar og til að afla efniviðs í hljóðfæri. Í kjölfarið verður haldið í listasmiðju þar sem búin verða til grafísk tónlistarskor með vatnslitum og sett verða saman allskonar hljóðfæri. Í lokin gera krakkarnir tilraunir til að leika á hljóðfærin eftir tónsmíðunum.

BRUM-2.png

Haderslev Domkirkes Pigekor: Nordic for Equal Voices

6. júlí kl 20:00

Danski stúlknakórinn Haderslev Domkirkes Pigekor syngur verk eftir norræn tónskáld. Kórinn sýnir breidd stúlknakórs sem hljóðfæris með fjölbreyttum verkum frá Íslandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Öll verk tónleikanna voru samin síðustu þrjátíu ár fyrir utan meistaraverkið Missa brevis eftir Benjamin Brittens frá árinu 1959.

 

Haderlev_Domkirkes_Pigekor_PSF_4213_©_Pa.jpg

Umbra Ensemble: Drottning himingeimanna

7. júlí kl 20:00

 

Tónlistarhópurinn Umbra flytur kirkjulega tónlist frá Íslandi, Skandinavíu og meginlandi Evrópu. Meðal efnis eru sálmalög úr íslensku handritunum Hymnódíu og Melódíu, ásamt lögum úr 13. og 15. aldar handritum frá Danmörku og Noregi. Einnig koma við sögu Hildegard von Bingen og söngvar pílagríma í Montserrat klaustrinu á 13. öld. 

Umbra01 (1).jpg

Dúplum dúó: Hugleiðingar um jökulvatn og ást

8. júlí kl 20:00

Dúplum dúó leggur áherslu á nútímaljóðlist og hvernig ljóðsöngur er túlkaður í dag. Þær stöllur leitast við í tónlist sinni að ögra hinni klassísku söngljóðahefð með óvenjulegri hjóðfæraskipan og túlkun sinni á frumsömdum verkum við texta samtímaskálda. Tónlistin er í senn brothætt, ljóðræn og hrá þar sem eingöngu er notast við söng og víóluleik

DuplumDuo_1.jpg

Amaconsort: Austanvindur við Ermasund

9. júlí kl 14:00

 

Sautjánda öldin átti eftir að sjá mikið umrót í tónlistarlífi Evrópu. Tímarnir kölluðu á öðruvísi músík, og hver á eftir öðrum spruttu upp þjóðrænir stílar, sem svo breiddust út um álfuna eins og tískubylgjur. Hér munu heyrast fáein útvöld verk úr þeirri fjölbreyttu tónlistarflóru sem hljómaði á Englandi á mismunandi skeiðum aldarinnar, ýmist samin þar í landi eða í heimsókn austan af meginlandinu.

Amaconsort.jpg

Tónleikaspjall: Berglind María Tómasdóttir

9. júlí kl 15:15

 

Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari og tónskáld, segir okkur frá verkum sínum. Berglind vinnur þvert á miðla og leitast við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. 

_SAJ3779.jpg

Berglind María Tómasdóttir og John McCowen: Ethereality

9. júlí kl 16:00

Á tónleikunum hljóma verk af plötunni Ethereality sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Jafnframt hljóma verk eftir Telemann og J. S. Bach í útsetningum flytjenda.

Berglind.jpg

Messa: Hildigunnur Einarsdóttir

10. júlí kl 11:00

 

Söngkonan Hildigunnur Einarsdóttir syngur í messu í Skálholtskirkju.

hildigunnur_102 Kopie.jpg

Tónskáldaspjall: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson

10. júlí kl 15:15

 

Staðartónskáldið Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson segir okkur frá verki sínu Skálholtsmessu sem flutt verður á lokatónleikum hátíðarinnar.

Skalholt_2022_Hrodmar.jpeg

Lokatónleikar: Skálholtsmessa

10. júlí kl 16:00

Skálholtsmessa var samin á vormánuðum árið 2000 að beiðni Helgu Ingólfsdóttur, stofnanda og listræns stjórnanda Sumartónleika í Skálholti og frumflutt á Ólafsvöku sama ár. Verkið hefur síðan verið flutt nokkrum sinnum og m.a. Skálholtshátíð 2010 með nýrri kynslóð söngvara og hljóðfæraleikara. Í framhaldi af þeim flutningi kviknaði sú hugmynd að útfæra verkið fyrir fjórar raddir eða einsöngvara og kór þar sem hægt væri að nýta möguleika þess til hins ítrasta. Sú útgáfa lítur nú dagsins ljós í fyrsta skipti með töluverðum breytingum í nokkrum köflum. Texti messunnar byggist á hinum hefðbundnu latnesku messuköflum og öðrum textum sem tengjast tilefninu, deginum og staðnum. Þeir textar eru fengnir úr gömlum íslenskum handritum m.a. Hymni scholares sem ritað var árið 1687 en tónskáldið gat ekki stillt sig um að bæta við einum kafla við ljóð Gyrðis Elíassonar „Englakórinn á kvöldæfingu“.

Skalholtsmessa.jpeg
bottom of page