Staðartónskáld
Það er okkur mikil ánægja að kynna Þórönnu Björnsdóttur og Gunnar Karel Másson, staðartónskáld Sumartónleika 2020. Á Sumartónleikum hafa verið frumflutt hátt í 200 verk og á hverju sumri frá árinu 1986 hafa verið eitt eða fleiri staðartónskáld. Það ár pantaði Helga Ingólfsdóttir stofnandi Sumartónleika verk eftir Jón Nordal fyrir Hljómeyki og samdi hann þá verkið Aldasöng sem verður einmitt fluttur nú í sumar (nánari upplýsingar síðar!). Verk eftir staðartónskáldin okkar í ár verða flutt á opnunartónleikunum 2. júlí og á lokatónleikunum 12. júlí.
Þóranna og Gunnar hafa bæði unnið mikið í raftónlistarheiminum en hafa einnig reynslu af því að semja kammertónlist. Þau munu dvelja í Skálholti við tónsmíðar og munu verkin þeirra tengjast Skálholti og Sumartónleikum. Þau munu vinna náið með ungu og upprennandi tónlistarfólki sem skipa tríóið KIMI.
Fimmtudagur 2. júlí
20:00 - Opnunartónleikar: Heiða, Tinna, Þóranna og Gunnar Karel
Sunnudagur 12. júlí
16:15 - Tónskáldaspjall: Staðartónskáld Sumartónleika 2020
17:00 - Lokatónleikar: KIMI tríó frumflytur verk staðartónskáldanna
Þóranna og Gunnar hafa bæði unnið mikið í raftónlistarheiminum en hafa einnig reynslu af því að semja kammertónlist. Þau munu dvelja í Skálholti við tónsmíðar og munu verkin þeirra tengjast Skálholti og Sumartónleikum. Þau munu vinna náið með ungu og upprennandi tónlistarfólki sem skipa tríóið KIMI.
Fimmtudagur 2. júlí
20:00 - Opnunartónleikar: Heiða, Tinna, Þóranna og Gunnar Karel
Sunnudagur 12. júlí
16:15 - Tónskáldaspjall: Staðartónskáld Sumartónleika 2020
17:00 - Lokatónleikar: KIMI tríó frumflytur verk staðartónskáldanna

Lokatónleikar: KIMI, Þóranna og Gunnar.pdf |
Þóranna Björnsdóttir
Þóranna Dögg Björnsdóttir lauk burtfararprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH. Hún lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006 og M.Art.Ed gráðu í kennslufræði lista við Listaháskóla Íslands árið 2014. Þóranna hefur sótt ýmis námskeið og vinnustofur í tengslum við tónlist, hljóð- og myndlist og staðið að kennslu í þeim efnum. Viðfangsefni Þórönnu eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verkefnin fela í sér þverfagleg vinnubrögð og þreifingar þvert á miðla og eru verk hennar gjarnan sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar, skúlptúra og hljóðverk. Verk Þórönnu hafa verið flutt víða og hefur hún komið fram á fjölmörgum tónleikum og listahátíðum á Íslandi og erlendis. Þóranna starfar einnig með listahópnum Wunderland http://wunderland.dk/ Árið 2019 gaf Þóranna út hljómplötuna LUCID ásamt Federico Placidi og var sú plata tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Einnig var verkið Þá birtist sjálfið í flutningi Heiðu Árnadóttur frumflutt á Myrkum Músíkdögum í ár við góðar viðtökur.
Verk Þórönnu hefur vinnutitilinn „Hvítar dúfur” en hugmynd og rannsókn byggir á minningu frá Skálholti frá því hún var stödd þar í fermingarferðalagi og átti fyrsta „alvöru“ trúnaðarsamtal við vinkonu. Tónlistin dregur innblástur sinn úr Sjöstirninu; lausþyrpingu ungra, blárra og heitra stjarna í stjörnumerkinu Nautinu sem hún og vinkona hennar sáu þetta kvöld. Samkvæmt grísku goðsögnunum eru stjörnurnar sjö dætur Atlasar og Pleiónu. |
Gunnar Karel Másson
Gunnar Karel Másson fæddist í Reykjavík 17. Maí 1984. Tónlistarnám hóf hann ungur að árum í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann stundaði nám á nokkur hljóðfæri má m.a. nefna túbunám við undirbúningsdeild fyrir tónlistarháskóla í Danmörku og jazz trompet við tónlistarskóla F.Í.H.. Árið 2007 hóf Gunnar Karel nám við Listaháskóla Íslands og lauk þaðan B.A. gráðu í tónsmíðum vorið 2010. Gunnar lagði stund á framhaldsnám í tónsmíðum í Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn frá 2010 til 2014 og lauk við M.Mus. og Advanved post-graduate diploma frá þeim skóla. Kennarar Gunnars í tónsmíðum voru; Tryggvi M. Baldvinsson, Úlfar Ingi Haraldsson, Bent Sørensen, Hans Abrahamsen, Jeppe Just Christensen, Niels Rosing Schow og Juliana Hodkinson. Sem tónskáld hefur Gunnar einbeitt sér fyrst og fremst að kammertónlist, þar sem honum finnst tónlistin fá þar þá athygli og tíma sem að hún þarfnast. Einnig hefur hann samið tónlist við fjölda leiksýninga hér heima og erlendis. Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Var hann listrænn stjórnandi Myrkra Músíkdaga 2016 – 2020 og stofnaði árið 2012 Sonic hátíðina í Kaupmannahöfn ásamt kollega sínum Filip C. de Melo. Einnig er hann einn af listrænum stjórnendum tónleikaraðarinnar Jaðarber í Reykjavík sem hefur legið í dvala í nokkur ár. Nýverið hóf Gunnar störf hjá Listahátíð í Reykjavík sem verkefnisstjóri norræna samstarfs verkefnisins Platform GÁTT. Gunnar er meðlimur í DKF, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.
Verk Gunnars er um það hvernig söknuður/þrá lýsir sér í okkar daglega lífi. Hann segir: „Við leitum eftir því sem okkur vantar, og söknum þess sem við höfum e.t.v. aldrei átt. Er þessi söknuður/þrá hluti af stærra samfélagslegu samhengi þar sem ofurskortur samtímans er búinn að kenna okkur að það sem við eigum sé ekki nóg? Erum við ofurseld hugmyndinni um að þurfa alltaf eitthvað nýtt/ferskt til þess að það sé þess virði að lifa?” Á þessum hugmyndum byggir Gunnar verk sitt og tengir við Skálholtskirkju og umhverfi hennar. |