Minningardagskrá tileinkuð Jaap Schröder og Helgu Ingólfsdóttur
Undir lok 17. aldar komu fram á sjónarsviðið stór félagssamtök í Róm sem nefndu sig Arcadia akademíuna. Þetta var bókmennta- og listafélag sem átti eftir að setja gríðarstóran svip á þróun ítalskrar menningar. Meðal kunnustu tónlistarmanna sem voru í félaginu var Arcangelo Corelli. Corelli samdi tónlist sína eftir þeim fagurfræðilegu viðmiðum sem einkenndu Akademíuna, og hún varð feikivinsæl um alla Evrópu. Áhrifa hans er að gæta í verkum Jóhanns Sebastians Bach, þó að óneitanlega sé mikill munur á stíl þessara tveggja meistara. Allesandro Scarlatti , annar heiðursmeðlimur akademíunnar, var einn af frumkvöðlum hinnar merkilegu Partimento tónsmíðaaðferðar sem eins fann sér leið til Bachs. Aðferðin snerist um að meistarinn skrifaði bassa að tónverki en sleppti hinum röddunum. Það var svo verkefni lærisveinsins að búa til laglínur og milliraddir. Þetta var sem sagt síðasta skrefið í átt að því að geta impróviserað og samið tónlist uppá eigin spítur, og átti eftir að verða útbreidd tónsmíðakennsluaðferð um alla Evrópu næstu tvöhundruð árin.
Þessir tónleikar eru tileinkaðir minningu Jaaps Schröder, fiðluleikara sem auðgaði heim barrokktónlistar og Sumartónleika í Skálholti meira ein orð fá lýst, og Helgu Ingólfsdóttur, frumkvöðuls í flutningi á tónlist fyrri alda á Íslandi og náins samstarfsfélaga Jaaps.
Laugardagur 11. júlí
14:00 - Minningardagskrá um Jaap Schröder og Helgu Ingólfsdóttur: Allar leiðir liggja frá Rómarborg
Sunnudagur 12. júlí
11:00 - Messa: Allar leiðir liggja frá Rómarborg
Þessir tónleikar eru tileinkaðir minningu Jaaps Schröder, fiðluleikara sem auðgaði heim barrokktónlistar og Sumartónleika í Skálholti meira ein orð fá lýst, og Helgu Ingólfsdóttur, frumkvöðuls í flutningi á tónlist fyrri alda á Íslandi og náins samstarfsfélaga Jaaps.
Laugardagur 11. júlí
14:00 - Minningardagskrá um Jaap Schröder og Helgu Ingólfsdóttur: Allar leiðir liggja frá Rómarborg
Sunnudagur 12. júlí
11:00 - Messa: Allar leiðir liggja frá Rómarborg

Allar leiðior liggja frá Rómarborg.pdf |
Halldór Bjarki Arnarson
Halldór Bjarki Arnarson lauk framhaldsprófi í hornleik vorið 2011 frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Í júlí 2016 útskrifaðist hann frá fjögurra ára Bachelorsnámi við tónlistarháskólann í Hannover með horn sem aðalfag. Haustið 2014 skráði hann sig í tölusettan bassa á sembal hjá Zvi Meniker, prófessor í Hannover, og tók uppfrá því virkan þátt í deild gamallar tónlistar þar. Halldór stundar nú nám í semballeik við hinn konunglega tónlistarháskóla í den Haag. Hann spilar reglulega með barrokksveitum á Íslandi og á meginlandinu. Hann er meðal annars meðlimur í íslenska barrokkhópnum Symphonia Angelica og hinum margverðlaunaða AMAconsort kvartett frá Þýskalandi. Halldór hefur fengist við aðrar tónlistarstefnur þar að auki. Hann syngur og leikur á söguleg íslensk hljóðfæri í þjóðlagahljómsveitinni Spilmenn Ríkínís og kemur reglulega fram sem djass- og dægurlagapíanisti svo eitthvað sé nefnt. Halldór hefur þó nokkrum sinnum átt innlegg í sjóð nýrrar tónlistar, og hafa verk hans verið flutt við ýmis tækifæri, bæði innan Íslands og utan. Hann hlaut styrk úr minningarsjóði Emils Thoroddsen fyrir að skrifa hornkonsert, gefinn út af Íslenskri Tónverkamiðstöð árið 2016.
Hildigunnur Halldórsdóttir
Hildigunnur Halldórsdóttir lauk bakkalársprófi í fiðluleik frá Eastman School of Music í Rochester í New York fylki árið 1990 og meistaraprófi frá sama skóla vorið 1992. Sama ár var hún ráðin til starfa við fiðludeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gerðist einnig félagi í tónlistarhópunum Caput, Camerarctica og Kammersveit Reykjavíkur. Hildigunnur hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur og verið konsertmeistari Hljómsveitar Íslensku óperunnar og Hljómsveitar Íslenska dansflokksins. Hildigunnur hefur einnig leikið á barokkfiðlu með Bachsveitinni í Skálholti, Reykjavík Barokk og Symphonia Angelica, og hefur verið leiðandi í flutningi tónverka frá barokktímanum, bæði kammerverka og stærri tónverka fyrir hljómsveit og kór. Hildigunnur hefur leikið inn á fjölda hljóðritana með þeim hópum sem hún hefur starfað með og komið fram á ýmsum hátíðum hér heima og erlendis. Þar má nefna Myrka músíkdaga, Sumartónleika í Skálholti og tónleika Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík þar sem hún hefur m.a. flutt alla strengjakvartetta Béla Bartóks og Dímítrí Sjostakovítsj ásamt félögum sínum úr Camerarctica.
Sigurður Halldórsson
Sigurður Halldórsson nam sellóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Guildhall School of Music í London. Sigurður starfar m.a. með Caput hópnum,Voces Thules, Symphonia Angelica og Camerarctica. Hann hefur komið fram á alþjóðlegum listahátíðum víða um Evrópu, Norður-Ameríku, Kína og Japan. Sigurður hefur unnið í leikhúsi, m.a. að nokkrum tilraunasýningum í dans- og músikleikhúsi og verið mjög virkur í alls kyns spunatónlist bæði sem flytjandi og kennari. Hann var einn af stofnendum 15:15 tónleikasyrpunnar sem sett var á fót árið 2002. Sigurður hefur sérhæft sig í flutningi tónlistar fyrri tíma með upprunalegum hljóðfærum. Helstu samstarfsmenn á því sviði hafa verið Helga Ingólfsdóttir, Ann Wallström, Bruno Cocset, Peter Spissky og Jaap Schröder, en þeir léku saman í tvo áratugi í Skálholtskvartettinum. Sigurður var listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholtskirkju frá 2004 - 2014. Sigurður er prófessor við Listaháskóla Íslands og fagstjóri í sam-evrópska NAIP meistaranáminu (New Audiences and Innovative Practice).
Sólrún Franzdóttir Wechner
Sórlún Franzdóttir Wechner kynntist sembalnum árið 2006 og undir leiðsögn Guðrúnar Óskarsdóttur lauk hún framhaldsprófi vorið 2012 við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún hóf nám við listaháskólann í Bremen þar sem hún lauk BA gráðu 2016 hjá Prof. Carsten Lohff og Michael Fuerst. Sólrún nam einnig við listaháskólann í Frankfurt á sembal hjá Prof. Eva Maria Pollerus og á barokkfiðlu hjá Mechthild Karkow. Þaðan lauk hún mastersgráðu í semballeik og í generalbassa 2020. Hún hefur spilað með ýmsum kammerhópum en einnig með stærri hljómsveitum, má þar nefna Óperuhúsin í Gießen, í Frankurt og í Belgrad. Sólrún er meðstofnandi kammerhópsins Les Cascades, en hópurinn er meðlimur í Yehudi Menuhin Live Music Now í Frankfurt og spila reglulega tónleika á þeirra vegum. Hérlendis hefur hún komið fram á Reykholtshátíð og spilað sembalkonserta á Sumartónleikum í Skálholti árið 2017 til minningar um Helgu Ingólfsdóttur, en henni fékk Sólrún að kynnast á unglingsárum og var seinna veitt styrkur til náms úr minningarsjóði hennar við nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur.