Marta Guðrún Halldórsdóttir lauk söngnámi í Þýskalandi árið 1993 og hefur síðan starfað sem söngkona, söngkennari, raddþjálfari og kórstjóri. Marta er í fremstu röð túlkenda á sviði samtímatónlistar og hefur verið atkvæðamikil í flutningi barokktónlistar auk þess sem hún hefur lagt rækt við íslenskan tónlistararf og flutt íslensk þjóðlög í útsetningum ýmissa tónskálda, gjarnan með Erni Magnússyni píanóleikara. Þau eru stofnendur smásveitarinnar Spilmanna Ríkinis sem flytur gamla íslenska tónlist á forn hljóðfæri. Marta Guðrún hefur stjórnað kór nemenda við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar um árabil. Hún er eftirsóttur raddþjálfari og hefur m.a. unnið með Mótettukór Hallgrímskirkju, Kór Breiðholtskirkju og Kór Áskirkju. Hún hefur stjórnað Hljómeyki frá árinu 2011.