Hljómeyki

Sönghópurinn Hljómeyki var stofnaður árið 1974. Hann hefur frá upphafi verið í fremstu röð íslenskra kóra og tekist á við afar fjölbreytt verkefni, allt frá kórmúsík endurreisnarinnar til rokktónlistar. Árið 1986 tók hópurinn upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti og hefur síðan lagt mikla áherslu á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar. Í Skálholti hefur Hljómeyki frumflutt tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins og hópurinn tekur iðulega þátt í öðrum hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist. Kórinn hefur gefið út sex hljómdiska með íslenskum verkum. Hljómeyki hefur oftsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig sungið með rokksveitunum Todmobile, Dúndurfréttum, Sólstöfum og Skálmöld. Þá hefur kórinn að undanförnu átt farsælt samstarf við Kammerkór Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Kórarnir fluttu Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin í mars í fyrra og tóku þátt í flutningi Jólaóratoríu Bachs með SN og einsöngvurum í Hofi í desember.