3. ágúst 2018. Síðasta helgin okkar hjá Sumartónleikum í Skálholti 2018, verslunarmannahelgin, er að renna upp. Við höldum okkar stíl. Nordic Affect með gamla og nýja tónlist og Sólveig Thoroddsen og Sergio Coto Blanco gefa okkur kost á því að hverfa í huganum langt aftur í aldir, með renaissance tónlist fyrir hörpu og lútu. Sumarið er búið að vera heldur betur viðburðarríkt hér í Skálholti. Fimmtán viðburðir að baki. Fullt af góðu fólki er búið að koma hér við og gróska í vætutíðinni mikil.
Allt á fullu við undirbúning seinni tveggja tónleikahelganna hjá Sumartónleikunum. Að lokinni Skálholtshátíð komum við aftur með þrjár efnisskrár. Föstudagskvöldið 27. júlí klukkan 20 leika Vladimir Waltham sellóleikari og Brice Sailly á sembal franska barokktónlist. Brák og Corpo di Strumenti flytja svo klassíska tónlist og nokkrar perlur eftir Bach á laugardeginum 28. og sunnudag 29. júlí. Sjá nánar á dagskrá. Lokahelgin verður svo um verslunarmannahelgina þar sem Nordic Affect, Sólveig Thoroddsen og Sergio Coto Blanco sjá um fjörið. Þá helgi verða líka þrjár efnisskrár í boði. 2018. Nú er dagskrá Sumartónleikanna að smella og við byrjum í næstu viku með Caput og Marco Fusi. Marco Fusi hefur starfað með mörgum af frægustu tónlistarmönnum álfunnar á sviði nútímatónlistar. Hann hefur einnig endurvakið áhuga á viola d‘amore hljóðfærinu og frumflutt fyrir það ný verk. Fjögur ný verk fyrir viola d‘amore og rafhljóð eru meðal þess sem verður frumflutt í næstu viku í Skálholti. Marco Fusi hefur á ferli sínum m.a. frumflutt verk eftir Billone, Sciarrino, Eötvös, Cendo og Ferneyhough og komið fram með stjórnendunum Pierre Boulez og Lorin Maazel. Hann er tíður gestur leiðandi hópa í samtímatónlist s.s. Klangforum Wien, MusikFabrik, Meitar Ensemble, Mivos Quartet, Ensemble Linea, Interface (Frankfurt), Phoenix (Basel) and Handwerk (Köln). Dagskrá Sumartónleika Skálholtskirkju 2017 er komin á heimasíðu Sumartónleikanna. Margir áhugaverðir tónleikar eru í boði. Staðartónskáld er María Huld Markan Sigfúsdóttir. Flytjendur í ár eru Hljómeyki, Nordic Affect, Gondwana singers, Camerata Öresund og kammerkórinn Cantoque. Barokkbandið Brák leikur á lokahelgi Sumartónleikanna, en semballinn verður þá einnig í stóru hlutverki. Tónleikar lokahelgarinnar eru tileinkaðir minningu Helgu Ingólfsdóttur stofnanda Sumartónleikanna. Sjá nánar dagskrá á heimasíðu. Heimasíða Sumartónleikanna er í vinnslu. ![]() Fimmtudaginn 23. júlí kl. 20 leikur Corpo di Strumenti fiðlusónötur eftir einn villtasta og áræðnasta könnuð fiðlunnar, hinn tékknesk-austurríska Heinrich Ignaz Franz von Biber. Á laugardaginn 25. júlí kl. 15 flytja meðlimir út White Raven, Rakel Edda Guðmundsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir söngkonur tónlist eftir Huga Guðmundsson, Claudio Puntin og Snorra Sigfús Birgisson, ásamt Gerði Gunnarsdóttur, Herdísi Önnu Jónsdóttur, Guðnýju Jónasdóttur, Steef van Oosterhaut og Claudio Puntin. Á undan tónleikunum, kl. 14, fjallar Claudio Puntin um tónlist sína í tónum og tali í Skálholtsskóla. Tónleikarnir verða endurteknir á sunnudaginn kl. 15. Á seinni tónleikum laugardagsins kl. 17 kemur fram söngtríóið White Raven sem flytur írsk og skosk þjóðlög. Meðlimir White Raven eru Kathleen Dineen, Robert Getchell og Mathias Spoerry. Um tónleika Corpo di Strumenti Leyndardóma Rósakransins Einu sinni var fiðlan ný meðal Germana, nýkomin frá Ítalíu og óendanlega forvitnileg uppspretta tilrauna og kannana. Einn villtasti og áræðnasti könnuður hins nýja hljóðfæris var hinn tékknesk-austurríski Heinrich Ignaz Franz Biber; hann teygði hljóma fiðlunnar og togaði eftir ótrúlegustu leiðum inn á lendur sem varla nokkur maður hefur farið síðan. Hér gefur að heyra sónötur úr leyndardómum Rósakransins - strengjaflækjuíhugun um gleði, þrautir og dýrð á og upp úr ævi Maríu guðsmóður - og afar skrautlegar sónötur Harmonia Artificiosa Ariosa fyrir tvær fiðlur. Fiðlan í öðru veldi, í öllu sínu veldi, ung og ótamin enn. Meðlimir Corpo di Strumenti eru Marie Rouquié og Gabriel Grosbard fiðluleikarar, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sellóleikari og Joseph Rassam semballeikari. Um dagskrá tónleikanna Mannslundin hrein Á þessum tónleikum mætast íslenskir og erlendir flytjendur í flutningi á íslenskri og erlendri tónlist. Íslenski hluti efnisskrárinnar á sér rætur í okkar gömlu handritum, annarsvegar í tónsmíð byggðri á íslenskum þjóðlögum eftir Snorra Sigfús Birgisson (útsett af Huga Guðmundssyni) og hinsvegar í verki eftir Huga Guðmundsson við texta sr. Ólafs Jónssonar á Söndum. Það verk var pantað af Sumartónleikum í Skálholtskirkju árið 2003 og kom út á geisladiskinum Sálin þýða frá Smekkleysu árið 2006. Í verkinu fá hljóðfærin liðsinni frá írsk/þýska söngtríóinu White Raven og altsöngkonunni Hildigunni Einarsdóttur en hún syngur jafnframt einsöng í verki Snorra Sigfúsar. Þessi íslenski hluti efnisskrárinnar rammar svo inn fjórar tónsmíðar eftir klarínettuvirtúósinn og tónskáldið Claudio Puntin sem jafnframt er meðal flytjenda á tónleikunum. Tvö af verkunum eru úr stærra verki sem hann nefnir LUCE, eða Ljós, en það var pantað til flutnings á sýningu á ljósaverkum Ólafs Elíassonar og James Turrell árið 2013. Þessi tvö verk og verkið Gerdia hafa verið sérstaklega umskrifuð fyrir þessa tónleika. Verkið Þeysireið er að finna á diskinum Ýlir sem kom út hjá hinu virta ECM útgáfufyrirtæki árið 2001. Um dagskrá White Raven Menn hafa lengi tjáð sig með þjóðlögum. Áður en rafmagn, sjónvarp og útvarp kom til sögunnar voru söngvar sungnir og ljóð lesin til dægrastyttingar hjá fólki í afskekktum sveitum og á klettóttum ströndum Atlantshafsins. Til voru söngvar fyrir hvert tækifæri: ástarljóð, harmljóð, vögguvísur, sjómannasöngvar, ferðaljóð, þjóðkvæði um harmleiki, hugrekki, mein, söngvar um bardaga og ævintýri og söngvar um hinn dulræna heim. Í írskum og skoskum þjóðlögum má finna margar skírskotanir í vatn, en hafið og vötn gegndu stóru hlutverki í lífi keltnesku þjóðarinnar. Efnisskrá White Raven í Skálholti fer með áheyrendur í ferðalag frá ströndum Atlantshafsins í Skotlandi og á Írlandi til dulrænna vatna, fjalla og dala huldir þokuslæðu. Flutt eru gelísk ástarljóð og vögguvísur, skosk þjóðkvæði og útsetningar á söngvum eftir nokkur helstu ljóðskáld Íra: WB Yeats, Patrick Kavanagh og Sean O `Casey. Fimmtudaginn 16. júlí kl. 20 leiðir Elfa Rún Kristinsdóttir Barokkbandið Brák á sínum fyrstu tónleikum. Frumflutt verður nýtt verk eftir staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti, Finn Karlsson, leikin verða kammer- og hlómsveitarverk eftir Rameau, de la Guerre og Muffat ásamt splunkunýjum útsetningum Gregoire Simon á Les Dominos eftir Couperin. Á undan tónleikunum kl. 19:30 kynnir Finnur tónlist sína í Skálholtsskóla. Tónleikarnir verða endurteknir laugardaginn 18. júlí kl. 21.
Náttúruhornin verða í sviðsljósinu á öðrum tónleikum Barokkbandsins Brákar sem fluttir verða laugardaginn 18. júlí kl. 16. Ella Vala Ármannsdóttir leikur hornkonsert eftir Telemann, Emil Friðfinnsson slæst með í för í svítu og sinfóníu eftir J.G.Graun, en á milli horntónanna hljóma strengjakammerverk W.F. Bachs og Telemanns. Efnisskrá fimmtudag 16. júlí kl. 20 og 18. júlí kl 21 Frönsk tónverk eru í aðalhlutverki á fyrstu tónleikum Barokkbandsins Brákar. Einnig er nú frumflutt nýtt íslenskt tónverk og nýjar útsetningar leiknar sem gerðar hafa verið sérstaklega fyrir hópinn. Á tónleikunum leitast hópurinn við að blanda saman kammertónlist og stærri strengjaverkum, og notar til flutningsins allt rými Skálholtskirkju. Tónleikarnir hefjast á forleik og dönsum úr gamanóperunni Platée eftir eitt þekktasta barokktónskáld Frakka, Jean-Philippe Rameau Þar á eftir eru leiknar splunkunýjar útsetningar franska víóluleikarans Gregoire Simon á sembalverkum Couperins, les Dominos, í mismunandi hljóðfærasamsetningum þar sem flytjendurnir dreifa sér um kirkjuna. Frumflutningur á verki Finns Karlssonar, samið sérstaklega fyrir hópinn, þar sem hljómburður Skálholtskirkju fær sérstaklega að njóta sín með hljóðfæraleikara á víð og dreif um kirkjuna, leiðir yfir í tríósónötu eftir franska kventónskáldið Jacquet de La Guerre, en flutningur á verkum hennar hefur aukist sífellt síðastliðin ár. Tónleikunum lýkur á Concerto Grosso eftir George Muffat þar sem kammertónlistin kallast á við samhljóm hópsins. Efnisskrá 18. júlí kl. 16 Telemann er líklega þekktasta tónskáldið á þessum tónleikum. Hann var að mestu sjálflærður tónlistarmaður, en hann kom úr vel menntaðri fjölskyldu þar sem einungis einn af forfeðrum hans hafði unnið við tónlist. Wilhelm Friedemann kom hinsvegar úr stórri tónlistarfjölskyldu. Hann var elsti sonur Johanns Sebastians Bachs. Bæði Telemann og Wilhelm Friedemann námu lögfræði við Háskólann í Leizpig, en Wilhelm Friedemann var einnig nemandi við Tómasarskólann í Leipzig þar sem hann lærði á fiðlu hjá Johann Gottlieb Graun! Þessir tónleikar samanstanda af tveimur hljómsveitarverkum eftir Johann Gottlieb Graun þar sem náttúruhornin eru í forgrunni. Það gefast ekki mörg tækifæri til þess að heyra þessa hljóðfærasamsetningu með upprunalegum hljóðfærum á Íslandi! Hornkonsert Telemann í D-dúr er vinsælt verk, en það hefur þó ekki verið leikið á náttúruhorn á Íslandi fyrr en nú. Sem mótsetning við þykkan hljóm hljómsveitarverkanna hljóma tvö kammerverk þar sem fiðlurnar fá að njóta sín og hornin fá að hvíla sig! Þar eru á ferð ein óþekkt tríósónata eftir Wilhelm Friedemann Bach og hinn velþekkti konsert fyrir fjórar fiðlur án fylgibassa eftir Telemann. Nánar um Barokkbandið Brák Barokkbandið Brák er hópur ungs tónlistarfólks sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á barokktónlist, hefur sérhæft sig að hluta í þeirri tónlist erlendis og vill koma upprunaflutningi á framfæri á Íslandi. Langtímamarkmið Barokkbandsins er að taka þátt í uppbyggingu enn stærri barokksenu á Íslandi. Barokkbandið Brák er hópur sem kemur fram í mismunandi hljóðfærasamsetningum, allt eftir efnisvali viðkomandi tónleika. Þannig heldur hópurinn stundum smærri kammertónleika eða stærri hljómsveitartónleika, en áhersla er einnig lögð á að blanda saman einleiksverkum, kammerverkum og hljómsveitarverkum á einum og sömu tónleikunum. Framtíðarmarkmið Barokkbandsins er að eiga virkt samstarf við aðrar listgreinar. Fyrstu tónleikar Barokkbandsins eru þeir sem haldnir eru nú á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Næsta vetur kemur Barokkbandið Brák fram í fyrsta skipti í Reykjavík, en þá verða settir upp óhefðbundnir tónleikar þar sem tónleikagestir verða hluti af leikmynd tónleikanna. Efnisskráin verður sett saman úr veraldlegum verkum frá barokktímanum með leikræna heild tónleikanna í huga. Söngverk verða í aðalhlutverki, tveir dansarar taka þátt, en einnig verða einleiks- og tvíleiksverk fléttuð inn í dagskrána. ![]() Hljómeyki frumflytur nýtt verk eftir staðartónskáld sumarsins, Stefán Arason, í Skálholti um helgina og Elfa Rún og þýski semballeikarinn Elina Albach flakka á milli 17. og 21. aldar og leika tónlist eftir J.S. Bach, G.A.P. Mealli, James Dillon og Sciarrino. Tónleikar þeirra bera yfirskriftina Contiuum eftir samnefndu verki eftir Ligeti, sem einnig verður á dagskrá tónleikanna. Þær Elfa Rún og Elina koma fram fimmtudaginn 9. júlí kl. 20 og laugardaginn 11. júlí kl. 17. Hljómeyki frumflytur verk Stefáns ásamt fleiri eldri verkum eftir hann laugardaginn 11. júlí kl. 15. Tónleikarnir verða endurteknir sunnudaginn 12. júlí kl. 15. Dagskrá Hljómeykis og Stefáns Arasonar Efnisskrá tónleika Hljómeykis inniheldur helstu kirkjulegu kórverk Stefáns Arasonar, skrifuð á tímabilinu 2003-2015. Stefán hefur verið búsettur í Danmörku frá árinu 2001. Hann var kirkjusöngvari á meðan hann stundaði tónsmíðanám í Árósum og eru verkin Benedictus og Veni Creator Spiritus frá þeim tíma. Benedictus var samið að beiðni organistans í Sankti Páls kirkju í Árósum þar sem Stefán var söngvari. Verkið byggir á danska sálmalaginu O, du Guds lam! med korsets skam eftir Thomas Laub sem er oft sungið fyrir altarisgöngu í dönskum kirkjum. Veni Creator Spiritus var samið að beiðni eins pófastsdæmanna í Árósum og var frumflutt í sameiginlegri hvítasunnuguðsþjónustu allra kirknanna. Verkið byggir í upphafi á gamla Gregorlaginu við textann, en endar á íslensku sálmalagi sem sungið er við sálminn Á meðan enginn mætir neyð. Stefán flutti til Kaupmannahafnar árið 2006 og hóf nám í orgelleik í Kirkjutónlistarskólanum í Hróarskeldu. Samhliða námi var hann kirkjusöngvari í Kingos kirkju á Norðurbrú og leysti stundum organistann af í messum. Fyrir eina messuna vantaði stólvers og samdi Stefán því nýtt lag við sálm Grundtvigs, Guds menighed, syng for vor skaber i løn. Í íslenskri þýðingu Valdimars Briem heitir sálmurinn Ó, syng þínum Drottni, Guðs safnaðar hjörð og vitnar titill þessara tónleika í aðra línu sálmsins. Future Requiem er samvinnuverkefni Stefáns og danska ljóðskáldsins og rithöfundarins Jens Carl Sanderhoff. Jens sótti innblástur og efnivið í sálumessu kaþólikka og orti nýjan texta út frá þeim. Tónlistin leggur sig þétt upp að nýja textanum og myndar mismunandi rými fyrir hvern kafla. Dagskrá Elfu Rúnar og Elinu Albach Á þessum fjölbreyttu tónleikum flétta Elfa Rún og Elina Albach saman tónlist frá afar ólíkum tímum og stöðum. Tónleikarnir eru nefndir eftir verkinu Continuum eftir György Ligeti og er öll efniskráin hugsuð sem ein heild. Tónleikarnir hefjast á sónötu nr. 2 í A-dúr eftir J.S. Bach og til þess að brúa bilið yfir til Ítalíu leikur Elfa Rún örstutt einleiksverk eftir ítalska tónskáldið Salvatore Sciarrino. Þaðan liggur leiðin aftur til 17. aldar. Leiknar eru þrjár sónötur af sex úr þriðja ópus ítalska fiðluleikarans Pandolfi Mealli, en einungis tveir flokkar af fiðlusónötum hafa varðveist eftir tónskáldið! Inn á milli draumkennds og frjálslegs forms ítalska snemmbarokksins leika Elfa Rún og Elina verk skoska tónskáldsins James Dillon sem skrifuð voru árið 2001. Dillon hefur skrifað nokkrar bækur af Traumwerk, en bók númer tvö, sem inniheldur dúó fyrir fiðlu og sembal, er afar sjaldan spiluð og hljómar nú á íslandi í fyrsta sinn. Continuum eftir Georgy Ligeti, skrifað árið 1968, byggir á endurteknum rytmum og mótívum sem leiða svo beint yfir í lokaverk tónleikanna, sónötu í e-moll eftir J.S. Bach fyrir fiðlu og fylgirödd. Franski barokkhópurinn Nevermind og samstarfsvika Listaháskóla Íslands og Sumartónleika í Skálholti6/30/2015
Laugardaginn 4. júlí kl. 15 koma nemendur úr Listaháskóla Íslands ásamt Sigurði Halldórssyni og meðlimum úr franska barokkhópnum Nevermind fram í Skálholtskirkju og sýna afrakstur barokkvinnustofu. Flutt verður Svíta úr óperu Elizabeth-Claude Jacquet de La Guerre, Cephalis et Procris. Klukkan 17 flytur Nevermind franska barokktónlist, m.a. eftir Couperin, Quentin og Guillemain.
Nevermind er hópur fjögurra ungra hljóðfæraleikara og vina úr Conservatoire Supérieur í París. Þau kynntust í gegnum ástríðu sína á eldri tónlist, djasstónlist og þjóðlagatónlist og stofnuðu hópinn Nevermind. Markmið hópsins er að deila tónlist 17. og 18. aldar til eins breiðs áhorfendahóps og mögulegt. Vinátta og ástríða þeirra fyrir tónlistinni skín í gegn í flutningi þeirra á þeim fjölda tónleika sem hópurinn kemur fram á um allan heim. Á sunnudaginn 5. júlí, sjá nemendur úr Listaháskóla Íslands um dagskrána. Kl. 14 flytur Þorgrímur Þorsteinsson erindið Alvör, sem er byggt á BA lokaverkefni hans í Skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands, þar sem myndað var teymi flytjenda, tónskálda og framleiðenda um hljóðritanir, miðlun og útgáfu á nýrri tónlist. Inn í erindið verða fléttuð verk eftir nemendur úr skólanum, Örn Ými Arason, Þorkel Nordal, Örnfólf Eldon Þórsson og Axel Inga Árnason. Að erindinu loknu, eða kl. 15, flytja Kór og Sinfóníetta Listaháskóla Íslands tónlist eftir samnemendur sína. Stjórnendur kórsins eru þeir Steinar Logi Helgason og Sigurður Árni Jónsson, en þeir eru einnig nemendur skólans. ![]() Rás eitt mun gera Sumartónleikum í Skálholtskirkju skil nú í Dymbilviku. Ingibjörg Eyþósdóttir sér um þáttinn Úr tónlistarlífinu á Pálmasunnudag kl. 16:05, þar sem hún mun leika úrval af upptökum frá Sumartónleikum ásamt því að ræða við fráfarandi listrænan stjórnanda, Sigurð Halldórsson, í tilefni af 40 ára afmæli hátíðarinnar. Fyrsta tónleikasumarið var árið 1975 og var því fertugasta hátíðin haldin síðastliðið sumar. Fyrir þessa afmælishátíð hlutu Sumartónleikar í Skálholtskirkju Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir viðburð ársins 2014. Meðal flytjenda voru Ensemble Villancico sem flutti suður-ameríska barokktónlist, Ann Wallström, ungir norrænir flytjendur í úrslitum EAR-ly keppninnar, Nordic Affect, Bachsveitin og Hljómeyki. Mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöld kl. 19 verða leiknar hljóðritanir bæði frá tónleikum og af geisladiskum með verkum sem pöntuð hafa verið af hátíðinni. Hljóðritanirnar skiptast í fjögur tímabil: 1. Fyrstu árin frá stofnun Sumartónleika þegar Helga Ingólfsdóttir og Manuela Wiesler sáu aðallega um flutninginn og mótuðu stefnu hátíðarinnar. Fyrst fluttu þær einkum barokktónlist, en smám saman tóku þær á dagskrá ný verk í auknum mæli sem íslensk tónskáld hófu að semja fyrir þær. 2. Árin frá 1985, þegar hátíðin fór að taka á sig alþjóðlegan svip, og fram á miðjan 10. áratuginn. Veglegur norrænn styrkur fékkst til að bjóða glæsilegum barokkspilurum frá Norðurlöndum. Bachsveitin í Skálholti var stofnuð auk þess sem farið var að bjóða staðartónskáldi að vinna með flytjendum að frumflutningi á nýjum verkum. Kammerkórinn Hljómeyki var endurvakinn og kom fram í fyrsta sinn í Skálholtskirkju. 3. Árin frá 1997 og fram yfir aldamót, þar sem þriðja markmið hátíðarinnar var skilgreint: að stuðla að rannsóknum, flutningi og úrvinnslu á íslenska tónlistararfinum í kjölfar þess að mikið safn tónverka hafði komið í ljós í íslenskum handritum allt frá miðöldum. 4. Árin frá 2005 eftir að Sigurður Halldórsson tók við stjórn hátíðarinnar fram til dagsins í dag. Leikið verður efni, í flutningi Helgu Ingólfsdóttur og Manuelu Wiesler, Hljómeykis, Bachsveitarinnar, Jaaps Schröder o.fl., eftir ýmsa barokkmeistara, Jón Nordal, Huga Guðmundsson og fleiri. Framundan er spennandi tónleikasumar hjá Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Staðartónskáld eru Stefán Arason og Finnur Karlsson. Kammerkórinn Hljómeyki frumflytur nýtt verk eftir Stefán og hið nýstofnaða Barokkbandið Brák frumflytur verk eftir Finn. Auk þess flytur bandið franska barokktónlist og fær liðsauka frá þeim Ellu Völu Ármannsdóttur og Emil Friðfinnssyni sem munu leika á náttúruhorn. Nemendur úr Listaháskóla Íslands flytja svítu úr óperu eftir Elizabeth-Claude Jacquet de La Guerre og franski barokkhópurinn Nevermind heldur tónleika ásamt því að vinna með nemendum LHÍ. Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Elina Albach semballeikari flakka á milli 17. og 21. aldar og leika tónlist eftir J.S. Bach, G.A.P. Mealli, James Dillon og Sciarrino. Corpo di Strumenti leikur fiðlusónötur eftir einn villtasta og áræðnasta könnuð fiðlunnar, hinn tékknesk-austurríska Heinrich Ignaz Franz von Biber. Söngtríóið White Raven mun flytja írsk og skosk þjóðlög ásamt því að flytja Mjög hneigist þar til mannslundin hrein eftir Huga Guðmundsson með Hildigunni Einarsdóttur og hópi íslenskra hljóðfæraleikara. Hópurinn mun einnig flytja tónlist eftir Snorra Sigfús Birgisson og Claudio Puntin. Í lok sumarsins flytur Nordic Affect tónleika með yfirskriftinni HÚN/SHE, en á dagskrá verður barokktónlist sem búin var til útgáfu af fremstu nótnariturum Frakklands og gefin út af einum helsta útgáfurisa Parísar um miðbik 18. aldar. ![]() Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið tilnefndir til Íslensku tónistarverðlaunanna sem tónlistarviðburður ársins. Sumartónleikar hafa á síðastliðnum áratugum tekið þátt í fjölmörgum verkefnum sem hafa hlotið verðlaunin, t.d. vegna tónlistar sem pöntuð hefur verið af Sumartónleikum, verk sem hafa verið frumlutt, æfð eða hljóðrituð á hátíðinni, auk þess sem Helga Ingólfsdóttir, stofnandi Sumartónleika, hlaut heiðursverðlaun fyrir frumkvöðlastarf við uppbyggingu hátíðarinnar. Sigurður Halldórsson, listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholtskirkju, lætur af störfum um áramótin eftir 10 ára skeið. Hann kveður þó ekki fyrir fullt og allt, því hann mun eiga sæti í nýskipuðu listrænu teymi sem annast mun listræna stefnumótun hátíðarinnar. Í því eru auk Sigurðar, Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari, og Hugi Guðmundsson, tónskáld. Auk þess að standa fyrir dagskrá og listrænni stefnu hátíðarinnar verða meðlimir listræna teymisins virkir sem flytjendur, tónskáld eða leiðbeinendur vinnustofa á hátíðinni. Þorgerður Edda Hall, sem gengt hefur stöðu framkvæmdastjóra Sumartónleika síðastliðin tvö ár, mun stýra hátíðinni. Listræna teymið átti sinn fyrsta sameiginlega fund í Kaupmannahöfn í lok september þar sem línurnar voru lagðar fyrir næstu þrjú árin. Í tengslum við þessar breytingar stóð Hollvinafélag Sumartónleika fyrir málþingi í Skálholti um framtíð hátíðarinnar 10. júlí sl. Vel var mætt á málþingið og sýndu stuðningsmenn Sumartónleika hversu mikilvæg hátíðin er fyrir stóran hóp fólks, auk þess sem rætt var mikilvægi fræðslugildis og sérstöðu hátíðarinnar. Tóku málþingsgestir vel í breytingartillögur á rekstrarformi hátíðarinnar, sem stjórn Sumartónleika samþykkti í framhaldinu. Það er von okkar að nýtt listræna teymið hleypi nýju blóði í Sumartónleika í Skálholtskirkju, m.a. með aukinni áherslu á ungt tónlistarfólk. Þó verður meginstefnu Sumartónleika frá upphafi haldið í heiðri, með áræðni og metnað í dagskrárgerð sem eitt af meginmarkmiðunum. Hátíðin verður áfram vettvangur fyrir upprunalegan tónlistarflutning, nýsköpun og fræðslustarf og verður opin fyrir nýjum áheyrendum. Verða starfræktar tónlistarbúðir þar sem ungt tónlistarfólk fær tækifæri til að vinna að krefjandi verkefnum og njóta reynslu færustu listamanna víða að úr heiminum. Eins verður áhersla lögð á að efla samstarf hátíðarinnar við Skálholtsstað og að taka þátt í áframhaldandi alþjóðasamstarfi, s.s. Nordic Early Music Federation (NORDEM). Ofangreind markmið eru þó háð því að hátíðin fái fjárhagslegt svigrúm til þess að framkvæma þau. Þrengt hefur mjög að fjárhag hátíðarinnar á undanförnum árum þrátt fyrir að hún hljóti ítrekað ótvíræða viðurkenningu á tilvist sinni, sbr. tilnefninguna til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Eyrarrósina 2011 svo fátt eitt sé nefnt. Sænski hópurinn Ensemble Villancico opnar hátíð sumarsins með suður-amerískri barokktónlist. Tónleikarnir verða haldnir í Skálholtskirkju sunnudaginn 29. júní kl. 20. Ensemble Villancico var stofnað árið 1995 og hefur, undir stjórn Peters Pontvik, komið fram í yfir 25 löndum, þar á meðal í Skandinavíu, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Suður-Ameríku. Árið 2001 vann hópurinn til Ivan Lukacic verðalunanna á tónlistarhátíðinni í Varazdin í Króatíu. Hann hefur gefið út fjölda geisladiska með suður-amerískri barokktónlist, síðast 'Hy hy hy hy hy hy hy - The New Jungle Book of the Baroque', sem gefinn var út af Caprice Records. http://www.villancico.se/ |
|