Í skuggsjá vængja þinna
Á tónleikum Elju verður andlega hliðin innan heims nútímatónlistar skoðuð. Á efnisskránni eru verk eftir Báru Gísladóttur, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Dobrinku Tabakovu, Guðmund Stein Gunnarsson og Tatjönu Kozlova-Johannes. Verkin sem flutt verða eru ólík en gera hvert og eitt grein fyrir innri ró, hvert á sinn hátt. Titilverk tónleikanna er frumflutningur eftir Guðmund Stein og sérstaklega pantað fyrir hátíðina.
Guðmundur Steinn Gunnarsson hefur fundið sig knúinn til að þróa með sér nótnaskrif á tölvuskjá til þess að koma hrynmáli sínu til flytjenda. Tónlistin hans notast oft við nýja hljóðgjafa í bland við gamla sem og fornar tónstillingar.
Um verkið: Ingmar Bergman og Philip K. Dick sömdu báðir sögur með titlum sem vísa í fyrra bréf Páls til Korintumanna. En það sem vekur athygli, spurningar frekar en svör, er að báðar þessar sögur fjalla á einn eða annan hátt um geðrænar áskoranir, einstaklinga sem passa illa inn í sitt samfélag og væntingar þess. Í samfélagi beinna lína virðist það vera markmið að veröld okkar öll verði sem líkust skattskýrslu. Viðkvæmir einstaklingar eiga erfitt uppdráttar í línulegum og hagsmunamiðuðum samtíma þar sem allt er mælanlegt með reglustiku og lífið er ekkert annað en línuleg dægrastytting í þann stutta tíma sem það endist. Sjáendur, dýrðlingar og dulhyggjufólk okkar tíma er kannski lokað inni og haldið frá samfélaginu. Kannski með nauðungarvistunum, sjálfræðissviptingum, nauðungarlyfjagjöfum eða týndir einhvers staðar í annars konar lyfjamóki. Því segi ég, spurðu ekki hvað Jesú myndi gera, heldur hvað þú myndir gera við Jesú. Við fáum ekkert svar að svo stöddu en við getum allt að því séð svarið, óljóst, svo sem í skuggsjá . . . |
The Worlds Within our Petty Voids var samið fyrir Ensemble Recherche vorið 2019. Meginmarkmið verksins er að sameina tréblásara og strengi í samskonar áferð með framlengdri tækni hljóðfæranna, þá fyrst og fremst í formi yfirtóna, klaufhljómar (en. multiphonics) og almennt loftkenndrar áferðar. Allt er þetta sprottið út frá grunnhugmynd verksins, þ.e. ef til væru margslungnir heimar í alls kyns tómarúmum.
|
Í tónsmíðum Bergrúnar Snæbjörnsdóttur er leitast er við að skapa hljóðheima útfrá innri rökfræði, oft í órjúfanlegri heild við aðra miðla. Verk hennar hafa verið flutt víða um heim, og meðal annars hljómað í flutningi hópa eins og Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Ósló, International Contemporary Ensemble ICE (US), Sinfóníuhljómsveit Íslands, Avanti! Chamber Orchestra (FI) og Nordic Affect (IS). Um þessar mundir er Bergrún búsett í Brooklyn, NY þar sem hún er nú staðartónskáld hjá The International Contemporary Ensemble auk þess að vera nýlega móttakandi Hildegaard verðlauna The National Sawdust.
Um verkið: Skin In var pantað af Önnu Þorvaldsdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2019. Á þessum tónleikum mun hljóma breytt útgáfa verksins gerð sérstaklega fyrir Elju Kammersveit. |